Munu stjórnvöld grípa björgunarhringinn???

Við Íslendingar höfum búið við efnahagslegan stöðugleika og vaxandi kaupmátt síðustu ár sem eru mikil umskipti frá fyrri tíð.  Þetta jákvæða umhverfi hefur ekki orðið til af sjálfu sér heldur er komið til vegna sameiginlegs átaks vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Á sama tíma hefur ytra umhverfi unnið með okkur. Þessi góði árangur er ekki sjálfgefinn og ekki sjálfgefið að hann muni vara um alla framtíð.
Okkur hefur tekist á stuttum tíma að endurreisa lífskjör á Íslandi eftir mikla niðursveiflu í kjölfar hrunsins og eru þau orðin sambærileg við það sem þekkist í okkar nágrannalöndum. En stundum er auðveldara að ná góðum árangri til skamms tíma en varðveita hann til lengri tíma.
Frammi fyrir þessu stóðu aðilar vinnumarkaðarins við endurskoðun kjarasamninga, þeir voru sammála um að það væri forsendubrestur en þrátt fyrir það, sammála um að ekki væri rétt að segja samningunum lausum og setja góðan árangur síðustu ára í upplausn.
Nú er það undir ríkisstjórninni, sveitarfélögunum og einstökum fyrirtækjum komið hvernig framhaldið kemur til með að þróast, hvort okkur tekst að þróa kjarasamningslíkan sem skilar okkur árangri til lengri tíma og er sambærilegt við það sem þekkist á hinum Norðurlöndunum.
Til þess að byggja upp traust og trú á nýjum leiðum í kjarasamningsgerð verður almenningur að geta treyst að allir spili með, bæði atvinnulíf og stjórnvöld.
Það eru mikil vonbrigði að ástæða forsendubrestsins skuli vera aðgerðir stjórnvalda sem eru aðilar að rammasamkomulagi kennt við „SALEK“ þ.e. niðurstaða kjararáðs um starfskjör alþingismanna og æðstu embættismanna.
Eitt ár er stuttur tími og því mikilvægt að við sjáum jákvæð viðbrögð af hálfu stjórnvalda sem fyrst og þau skapi þannig trú á framhaldið. Án viðbragða af hálfu stjórnvalda verður ekki haldið áfram vinnu við útfærslu SALEK, sem við þó erum flest sammála um að sé mikið þjóðþrifamál sem við munum öll njóta um ókomna framtíð ef vel tekst til.
Með frestun á endurskoðun kjarasamninga er búið að kasta björgunarhring til stjórnvalda sem gefur þeim kost á að bæta ráð sitt og tryggja að ákvarðanir og kjarasamningar á þeirra vegum sé innan rammasamkomulagsins.
Bæti stjórnmálmenn ekki ráð sitt er ljóst að þeir hafa sett eigin hag fram yfir hag almennings.